LÖG

STARFSMANNAFÉLAGS VESTMANNAEYJABÆJAR

I. kafli

Nafn félagsins og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar (skammstafað STAVEY). Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.

2. gr.

Félagið er stéttarfélag starfsmanna Vestmannaeyjabæjar og annarra opinberra starfsmanna sem taka laun samkvæmt kjarasamningum er Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar hefur gert við Vestmannaeyjabæ og eða aðra opinbera aðila.

Tilgangur félagsins er m.a.

a)         að fara með umboð félagsmanna við gerð kjararasamninga og við aðrar sameiginlegar ákvarðanir allra félagsmanna.

b)         að gæta réttinda og skyldna félagsmanna í öllu því sem varðar laun önnur kjör og starfsréttindi hvers konar. Það kemur að öllu leyti  opinberlega fram fyrir hönd félagsmanna, í samræmi við lög um réttindi og skyldur  opinberra starfsmanna

c)         að starfa að öðrum þeim málum sem að mati stjórnar mega verða félagsmönnum til heilla og ánægju.

d)         að efla samvinnu með öllum félagsmönnum og öðru launafólki

II. kafli

Félagsaðild

3. gr.

Aðild að félaginu eiga allir opinberir starfsmenn sem taka laun samkvæmt kjarasamningi milli þess og Vestmannaeyjabæjar, fjármálaráðuneytis, eða annarra þeirra sem falið hafa þessum aðilum samningsumboð fyrir sína hönd. Ennfremur geta starfsmenn sjálfseignastofnana í lögsagnarumdæmi Vestmannaeyja öðlast félagsréttindi, ef þær stofnanir vinna í almenningsþágu, að mati félagsstjórnar.

4. gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg tilkynning til stjórnar félagsins, og öðlast hún gildi þegar liðnir eru þrír mánuðir frá því að tilkynning berst stjórninni. Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og á meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli lýkur.

Halda skal aukaskrá yfir þá sem ekki eru félagsmenn, en greiða gjald til félagsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og hafa tilkynnt það skriflega, að þeir óski ekki eftir að vera félagsmenn. Þeir sem á aukaskrá eru, njóta ekki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda svo sem aðildar að sjóðum félagsins, en taka laun eftir kjarasamningi félagsins og njóta þjónustu samkvæmt honum.

5. gr.

Þegar félagsmaður lætur af starfi á samningssvæði Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar, missir hann samtímis öll félagsréttindi. Félagsmaður sem lætur af starfi vegna aldurs eða veikinda og hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta heldur öllum félagsréttindum, en skal vera gjaldfrjáls.

Einnig skal sá sem verður atvinnulaus, þegar starfi innan samningssviðs félagsins lýkur, halda félagsréttindum þann tíma sem atvinnuleysi hans varir. Atvinnulausir greiði félagsgjaldeins og aðrir félagsmenn, en stjórn félagsins er heimilt að fella það niður að hluta eða öllu leyti.

III. kafli

Stjórn og stjórnarstörf

6. gr.

Stjórnin skal skipuð 5 félagsmönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og tveimur til vara.

Stjórnin skal kosin beinni kosningu á aðalfundi. (Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi skulu kosnir sérstaklega). Enn fremur skulu kosnir tveir menn í varastjórn, sem hafa sömu skyldur og réttindi og aðalmenn í forföllum þeirra. Við kjör stjórnar skal leitast við að hafa hlutföll sem jöfnust á milli ríkis- og bæjarstarfsmanna.

Ef þrír stjórnarmenn krefjast þess skriflega, að haldinn sé stjórnarfundur til þess að taka fyrir eitthvert tiltekið mál, skal formaður verða við þeirri beiðni innan þriggja sólarhringa. Sinni formaður ekki slíkri kröfu innan hins tilgreinda frests, er þeim heimilt að boða til fundar með eins sólarhrings fyrirvara.

Fundir stjórnar eru ályktunarbærir þegar fjórir eða fleiri stjórnarmenn sækja fund. Send skal út dagskrá til stjórnarmanna fyrir stjórnarfundi með umsömdum fyrirvara stjórnar. Boða skal varamenn á stjórnarfundi.

7. gr.

Stjórnin fer með ákvörðunarvald í málefnum félagsins milli aðalfunda og annast framkvæmd ákvarðana aðal- og félagsfunda og þeirrar stefnu sem þar hefur verið mótuð.

Stjórnin skal hlíta lögum þessum og sjá um að þeim sé framfylgt, og hafa hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Stjórnin tekur ákvarðanir um ráðningu starfsmanna félagsins og semur um ráðningarkjör við þá.

8. gr.

Halda skal gjörðabók um það sem fjallað er um á fundum stjórnar.

9. gr.

Formaður er aðalforsvarsmaður félagsins. Hann kallar saman félagsfundi, stjórnar- og fulltrúaráðsfundi og er formaður samninganefndar.

Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans og er honum jafnframt til aðstoðar við lausn mála.

Ritari heldur gjörðabók og færir í hana fundargerðir stjórnar og annarra funda. Ritari er varaformanni til aðstoðar í forföllum formanns.

Gjaldkeri sér um öll þau mál sem snúa að fjárhag félagsins. Hann leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins á aðalfundi. Gjaldkeri er formaður Vinnudeilusjóðs. Starfsmenn félagsins annast allan daglegan rekstur STAVEY.

IV. kafli

Fulltrúaráð

10. gr.

Í félaginu skal vera fulltrúaráð skipað trúnaðarmönnum vinnustaða félagsins sem kosnir eru samkvæmt lögum nr. 94/1986. Kosningin skal tilkynnt tveim vikum fyrir aðalfund félagsins.

11. gr.

Hlutverk fulltrúaráðs er að taka ákvarðanir um öll mikilvæg hagsmuna-, stefnu og félagsmál hverju sinni. Stjórn félagsins er skylt að leita til fulltrúaráðs um öll meiriháttar málefni er snerta störf félagsins.

Stjórn, fulltrúaráð taka ákvörðun um uppsögn kjarasamninga á tilsettum tíma fyrir lok gildistíma hans. Stjórn, fulltrúaráð og starfskjaranefnd, taka ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls og fer með framkvæmd skv. 15. gr. laga nr. 94/1986 með síðari breytingum.

Stjórn og fulltrúaráði kynna nýgerða kjarasamninga, sem kveða á um atkvæðagreiðslu. Getur kosningin þá bæði verið skrifleg á kjörstað, þ.e. allsherjaratkvæðagreiðslu eða með meirihlutasamþykkt á félagsfundi.

Ákvörðun um samning eða annað, er varða kjör starfsmanna fer eftir lögum nr. 94/1986 með síðari breytingum, verða aðeins teknar af þeim, sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum, sem samningurinn nær til.

Formaður félagsins er formaður fulltrúaráðs og boðar til funda í ráðinu með þeim hætti er hann telur heppilegastan. Fundir eru lögmætir ef 1/3 fulltrúaráðsmanna mæta.

Fundir skulu haldnir eins oft og þurfa þykir. Skylt er að halda fulltrúaráðsfund ef sjö fulltrúar óska þess skriflega. Halda skal gjörðabók yfir fundi fulltrúaráðs og er hún jafnframt gjörðabók stjórnar.

V. kafli

Nefndir

12. gr.

Orlofsnefnd skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Nefndin skal hafa umsjón með orlofsmálum félagsins.

13. gr.

Stjórn og fulltrúaráð skipa í uppstillinganefnd þrjá félagsmenn og einn til vara. Nefndin skal annast tilnefningar til kjörs stjórnar, endurskoðenda, orlofsnefndar, og í stjórn Vinnudeilusjóðs. Uppstillinganefnd skal auglýsa eftir framboðum til stjórnar og annarra embætta og skulu þau hafa borist uppstillinganefnd minnst þremur vikum fyrir aðalfund. Berist uppstillinganefnd fleirri en ein tilnefning kýs aðalfundur á milli manna (sbr. 6. gr.). Rétt til framboðs, til kjörs stjórnar og annara embætta, hefur hver fullgildur félagsmaður. Stjórnin leggur fram lista uppstillinganefndar viku fyrir aðalfund.

VI. kafli

Fundir

14. gr.

Félagsfundi skal boða með minnst tveggja daga fyrirvara, nema brýna nauðsyn beri til annars, að dómi stjórnar sem boðar til fundarins.  Auglýsa skal fundinn á vinnustöðum og í fjölmiðlum eða á annan hátt. Jafnframt skal tilgreina fundarefnið. Takist ekki að ljúka fundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsfundar svo fjótt sem kostur er og eigi síðar en innan sjö daga.

Sé boðað til fundar samkvæmt lögum þessum telst hann löglegur.

Félagsmenn geta krafist þess, að fundur verði haldinn í félaginu og er stjórninni skylt að taka það til greina, ef 1/10 hluti félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefnið.

15 gr.

Aðalfund skal auglýsa með minnst viku fyrirvara á vinnustöðum og í fjölmiðlum eða á annan hátt.

Aðalfundur skal haldinn fyrir 1. mars ár hvert. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsaðalfundar eigi síðar en innan 20 daga. Heimilt er að boða til aukaaðalfundar ef stjórn félagsins telur ástæðu til. Skal það þá gert með minnst tíu daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:

1.         Formaður setur fundinn og sér um kosningu fundarstjóra og ritara.

2.         Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

3.         Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar félagsins og sérsjóða til samþykktar/ eða synjunar.

4.         Skýrsla orlofsnefndar.

5.         Tekin ákvörðun um árgjald félagsmanna og gjald í vinnudeilusjóð.

6.         Tillögur til lagabreytinga, skv. 23 gr.

7.         Stjórnarkosning samkvæmt 6. gr.

8.         Kosnir tveir skoðunarmenn og einn til vara.

9.         Kosning  orlofsnefndar  skv. 12. gr.

10.       Kosning þriggja manna í vinnudeilusjóð og eins til vara skv. 22. gr.

11.       Kosning á þing BSRB þriðja hvert ár.

12.       Önnur mál.

16.gr

Fundinum skal stjórna eftir samþykktum fundarsköpum félagsins. Við atkvæðagreiðslu þarf einfaldan meirihluta greiddra atkvæða fundarmanna til þess að mál séu löglega samþykkt. Þó má enga breytingu gera á lögum félagsins nema á aðalfundi. Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þarf að samþykkja þær með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Tillögur fyrir aðalfund, sem eru fjárhagslega bindandi fyrir félagið, skulu hafa borist stjórninni fjórtán dögum fyrir aðalfund og kynntar á fulltrúaráðsfundi fyrir aðalfund.

VII. kafli

Fjármál

17. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Til þess að standa straum af kostnaði við starfsemi félagsins greiða félagsmenn mánaðarlega félagsgjald til þess, samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Í félagsgjaldinu er innifalið árgjald til BSRB samkvæmt ákvörðun bandalagsins. (Einnig er innifalið gjald í Vinnudeilusjóð samkvæmt ákvörðun aðalfundar. )

VIII.kafli

Starfsdeildir

18. gr.

Heimilt er að stofna sérstakar deildir innan félagsins með þeim er vinna skyld eða samskonar störf, eða störf sem krefjast hliðstæðrar menntunar.

Hlutverk starfsdeilda er að vinna saman að hvers konar hagsmunamálum sem þær koma sér saman um í sína þágu og félagsins.

IX. kafli

Deild eftirlaunaþega

19. gr.

Heimilt er að hafa innan félagsins deild eftirlaunaþega. Starfssvið deildarinnar þarf að hljóta staðfestingu stjórnar félagsins.

X. kafli

Trúnaðarmenn.

20. gr.

Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt því sem heimilað er í lögum nr. 94/1986, með síðari breytingum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og í samkomulagi um trúnaðarmenn við vinnuveitendur.

XI. kafli

Verkföll og aðar vinnudeilur

21. gr.

Stjórn, og fulltrúaráð fjalla um tillögur að boðun verkfalls þeirra félagsmanna sem rétt hafa til þátttöku í þeim. Skal ákvörðun um verkfall tekin með þeim hætti sem mælt er fyrir í lögum nr. 94/1986, með síðari breytingum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

XII. kafli

Vinnudeilusjóður.

22. gr.

Til skal vera vinnudeilusjóður innan félagsins. Honum er stjórnað eftir þeirri reglugerð sem samþykkt verður á aðalfundi félagsins 29. febrúar 1996. Stjórn sjóðsins skipa þrír félagsmenn og einn til vara.

XIII. kafli

Lagabreytingar

23. gr.

Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi. Heimilt er þó á aðalfundi að ákveða að vísa þeim tillögum til lagabreytinga, sem mikla þýðingu hafa, til samþykktar eða synjunar félagsmanna í allsherjaratkvæðagreiðslu og þurfa tillögur að lagabreytingum að hafa borist stjórn félagsins fjórtán dögum fyrir aðalfund. Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þarf að samþykkja þær með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. (Ákvæði 26. gr. laga þessara verður ekki breytt nema með samþykki tveggja aðalfunda.)

XIV. kafli

Slit félagsins

24. gr.

Bækur og skjöl félagsins skal fela Skjalasafni Vestmannaeyjabæjar til varðveislu.

Félagið má ekki leysa upp, nema 2/3 fulltrúaráðs samþykki og aðalfundur félagsins staðfesti þá samþykkt með sama atkvæðamagni, enda hafi þess verið getið í fundarboði beggja funda, að fyrir lægi tillaga um félagsslit. Fyrir fyrri aðalfundinn skal leggja fram tillögu um ráðstafanir á eignum félagsins verði af félagsslitum.